Denmark       United Kingdom

Góðar gjafir

Góðar gjafir

Hér verður reynt að halda til haga þeim góðu gjöfum sem skólinn hefur fengið á liðnum árum:

Foreldrafélag Háteigsskóla afhenti skólanum nýjan flygil að gjöf í tilefni af 30 ára afmæli skólans haustið 1998 og að því loknu vígði Víkingur Heiðar Ólafsson, nemandi í 9. bekk, flygilinn með tilþrifum.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------

Við útskrift 10. bekkjar vorið 2000 fékk unglingadeild skólans sjónvarp og Playstation leikjatölvu, stýripinna og leiki frá nemendaráði skólans.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------

Vorið 2000 fékk skólinn peningagjöf frá eldri nemendum sem útskrifuðust vorið 1990 frá skólanum. Voru peningarnir notaðir til að kaupa forrit til sérkennslu í skólanum.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------

Veturinn 2003 - 2004 gaf foreldrafélagið skólanum ýmislegt sem nýtist í tómstundum nemenda, svo sem fótboltaspil og ýmis borðspil og bingóvél og spjöld.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------

Í apríl 2004 fengum við fallegan sófa og tvo hægindastóla til afnota í unglingaálmunni. Voru það foreldrar í skólanum sem voru svona rausnarlegir.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------

Haustið 2005 fengum við fjóra fallega uppstoppaða fugla frá Svavari Guðmundssyni sem kenndi við skólann í fjölda­mörg ár. Var það kærkomin viðbót við litla náttúrufræðisafnið okkar.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------

Foreldrafélag skólans gaf nemendum þráðlausan hljóðnema í október 2005. Gjöfin var með því skilyrði að hljóðneminn yrði lánaður til félags- og leiklistarstarfa í skólanum.  

-----------------------------------------------------------------------------------------------------

Á útskriftarhátíð 10. bekkinga vorið 2010 bárust skólanum góðar gjafir. Nemendur Æfingaskólans sem útskrifuðust fyrir 30 árum, eða vorið 1980, gáfu skólanum veglega peningagjöf, foreldrafélag skólans gaf honum öflugan skjávarpa og nemendur 10. bekkjar gáfu skólanum þá peninga sem urðu afgangs eftir veturinn, því þeir söfnuðu fyrir talsvert meira en þurfti í útskriftarferð þeirra í vor.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------

Vorið 2011 fékk skólinn peningagjöf frá 10. bekkingum, en peningarnir voru afgangur af útskriftarferð þeirra í Skagafjörð.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------

Miðvikudaginn 4. janúar 2012 lést Magnea Hrönn Stefánsdóttir, íslenskukennari í unglingadeild. Í framhaldi af því var stofnaður minningarsjóður og er áætlað að verðlauna úr honum á hverju vori og halda þannig nafni Magneu á lofti. Reikningsnúmerið er 0372-13-703023; kennitala 520908-0130. Stjórn starfsmannafélagsins mun halda utan um reikninginn ásamt skólastjóra.

Nokkrar gjafir bárust skólanum vegna andláts Magneu:

Hildur Káradóttir og Ragnhildur Arnórsdóttir færðu skólanum 3 eintök af „Handbók um íslensku" til minningar um Magneu. Í kortinu stendur:
„Kæri Háteigsskóli
Nemendur í 10. LMJ og 10. RS veturinn 2001 – 2002 langar að færa Háteigsskóla gjöf í minningu Magneu íslenskukennara. Til að sýna hversu þakklát við erum fyrir þá frábæru kennslu sem við fengum, langar okkur að gefa skólanum þessar handbækur í íslensku í þeirri von að þær nýtist nemendum og kennurum á unglingastigi í komandi framtíð. Magnea sá mikið um íslenskukennslu okkar á unglingstigi. Fráfall hennar var því mikið áfall fyrir okkur öll. Öll munum við eftir henni sem ótrúlega ljúfri og góðri konu og svo ótrúlega færum og frábærum kennara.
Megi hún hvíla í friði."

Föstudaginn 24. ágúst var afhjúpað listaverk í Háteigsskóla. Þetta er glerlistaverk eftir Soffíu Árnadóttur og ber það yfirskriftina „Kjörinn til kraftaverka er kærleikurinn einn", en þessi orð eru úr ljóðinu Morgunstund eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.
Listaverkið var gefið til minningar um Magneu Hrönn Stefánsdóttur.

Gefendur eru samstúdentar Magneu úr Menntaskólanum á Akureyri.
Viðstaddir athöfnina voru Jón Höskuldsson eiginmaður Magneu og Stefán bróðir hennar, bekkjarfélagar úr MA, samstarfsfélagar Magneu hér í Háteigsskóla og nemendur hennar í 10. bekk.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------

Í október 2012 gaf Foreldrafélag Háteigsskóla skólanum skjávarpa að gjöf. Þetta er annar skjávarpinn sem foreldrafélagið gefur okkur og kemur hann að góðum notum í skólastarfinu, því þeir kennarar sem hafa skjávarpa í sínum stofum eru farnir að nota þá talsvert mikið við sína kennslu. Það voru þær Eydís Njarðardóttir og Margrét Halldórsdóttir sem færðu okkur skjávarpann.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------

Vorið 2013 fékk Minningarsjóður Magneu fjárhæð frá Sigurði Konráðssyni, Kolbrúnu Eggertsdóttur og börnum með þakklæti fyrir börnin þeirra fjögur sem voru hér í skóla 1994 - 2013.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------

Í nóvember 2014 gaf Foreldrafélag Háteigsskóla okkur tvo skjávarpa. Eru þeir ætlaðir til afnota í skólasafni og móttökudeild skólans. 

-----------------------------------------------------------------------------------------------------

Skákmeistaramót Háteigsskóla var haldið í fyrsta sinn fimmtudaginn 9. apríl 2015. Í tilefni mótsins gáfu skákkempur og fyrrum nemendur skólans okkur veglegan farandbikar í minningu Ólafs Guðmundssonar eðlisfræðikennara við skólann, en hann var mikill áhugamaður um skák. Nánari upplýsingar um bikarinn og gefendur eru í frétt á heimasíðu skólans.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------

 Foreldrafélag skólans gaf skólanum skjávarpa í byrjun árs 2017.

Prenta | Netfang

Háteigsskóli, v/Háteigsveg, 105 Reykjavík | Sími: 530-4300, Símbréf (fax): 530-4301
Netfang: This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Íþróttahús: 553-6887 | Hjúkrunarfræðingur: 530-4306 | Halastjarnan, s. 411-5580 og 663-6102