Denmark       United Kingdom

Eineltisáætlun skólans

Eineltisáætlun Háteigsskóla

 • Skilgreining á einelti

  Einelti verður þegar einstaklingur lendir reglubundið og yfir ákveðið tímabil í neikvæðu áreiti, andlegu/líkamlegu, eða útilokun af hendi einstaklings eða hóps.

  Hvað getur foreldri gert sem verður vart við einelti?

  Foreldrar getur haft samband við skólafélagsráðgjafa, umsjónarkennara eða skólastjórnendur. Einnig er hægt að tilkynna um einelti á sérstöku eyðublaði sem má finna í krækju hér efst.

  Hvað á nemandi að gera sem verður fyrir einelti eða veit um einelti?

  Eðlilegt er að nemendur snúi sér fyrst til foreldra sinna. Nemendur geta einnig snúið sér beint til umsjónarkennara, skólafélagsráðgjafa/námsráðgjafa, hjúkrunarfræðings eða skólastjórnenda með erindi sitt. Ennfremur geta nemendur tilkynnt um einelti á áðurnefndu tilkynningablaði.

  Hvað gerir starfsmaður skólans sem verður var við einelti?

  Starfsmaður sem verður var við einelti ræðir málið við foreldra barnsins og gjarnan barnið sjálft. Þau ákveða síðan í sameiningu hvort þau vilji snúa sér til eineltisteymisins með málið.

  Markmið og leiðir

  Í Háteigsskóla höfum við það að meginmarkmiði að öllum nemendum líði vel í skólanum.

  Við upphaf skólaárs og með reglulegu millibili eru börn og starfsfólk upplýst um samskiptastefnu og eineltisáætlun skólans. Þar kemur fram að einelti er ekki liðið í skólanum.

  Markvisst er tekið á og unnið með einelti, hvenær sem það kemur upp skv. meðfylgjandi áætlun. Skólafélagsráðgjafi skólans sér um verkstjórn í þeirri vinnu.

  Eineltiskannanir eru lagðar fyrir í skólanum á hverju hausti og í framhaldi af því fer af stað vinna í þeim eineltismálum sem þar birtast.

  Umsjónarkennarar aðstoða bekki við að setja sér bekkjarreglur gegn einelti haust hvert og að halda vakandi umræðu um einelti.

  Í skólanum er starfandi eineltisteymi sem í eiga sæti skólafélagsráðgjafi, sérkennari og fulltrúi skólastjóra. Auk þeirra taka sæti í teyminu umsjónarkennarar þess bekkjar/árgangs sem einelti kemur upp í hverju sinni. Hlutverk eineltisteymisins er að halda utan um og stýra vinnslu þeirra eineltismála sem upp koma í skólanum. Ennfremur að vera kennurum til ráðgjafar varðandi fyrirbyggjandi aðgerðir hvað varðar einelti.

  Skólafélagsráðgjafi leiðir starf eineltisteymis og skráir fundargerðir. Teymið kemur saman á hverju hausti og í framhaldi af því er áætlunin kynnt foreldrum á kynningarfundum og farið inn í alla bekki skólans. Einnig eru settar upplýsingar í Háteig. Teymið kemur einnig saman í lok skólaárs og gerir upp vinnu ársins.

  Nemendaverndarráð er upplýst um vinnu eineltisteymisins og er því til ráðgjafar. Í nemendaverndarráði sitja: Skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, fulltrúi skólastjóra, sérkennari, skólafélagsráðgjafi, hjúkrunarfræðingur, sálfræðingur og kennsluráðgjafi frá ÞMH.

  Vinnuáætlun fyrir eineltisvinnu í Háteigsskóla

  Þessi áætlun er alltaf unnin í fullu samráði við viðkomandi foreldra

  1. þrep - Athugun

  • Ábending berst.
  • Skólafélagsráðgjafi hefur samband við foreldra þolanda og fer yfir með þeim hvernig málið verður unnið.
  • Skólafélagsráðgjafi kallar eineltisteymi, ásamt viðkomandi umsjónarkennurum, saman á fund. Ákveðnar eru aðgerðir til að tryggja strax öryggi þolanda.
  • Á þessum fundi er gerð áætlun um athugun sem skal fara fram í þeim árgangi þar sem um grun um einelti er að ræða. Athugun þessi felur í sér að umsjónarkennarar taka einstaklingsviðtöl við 3-5 börn í hvorum bekk sem talin eru geta gefið upplýsingar sem varpa ljósi á ástandið í bekkjunum.
  • Á sama tíma aflar skólafélagsráðgjafi upplýsinga hjá starfsfólki skólans, Halastjörnunnar og 105.
  • Ef þörf er talin á er lögð tengslakönnun fyrir bekkina.
  • Þessi athugun skal ekki taka lengri tíma en eina viku.
  • Nemendaverndarráð er upplýst um að vinnsla í eineltismáli sé hafin.

  2. þrep - Úrvinnsla

  • Að þessari athugun lokinni kemur eineltisteymið saman á ný og fer yfir niðurstöður. Ef í ljós kemur að um einelti er að ræða eru ákveðin næstu skref.
  • Ákvarðaðir eru meintir þolendur og gerendur og markmið sett. Teymið skiptir með sér verkum.
  • Gerandi og foreldrar hans eru boðaðir á fund hjá skólafélagsráðgjafa og fulltrúa skólastjóra. Farið er yfir efni tilkynningar um einelti, greint frá niðurstöðum könnunar og gert samkomulag við þau um markvissa úrvinnslu málsins. Rætt er sérstaklega hvort um persónulegan vanda hjá geranda sé að ræða sem krefst einnig úrvinnslu. Þolandi og foreldrar hans eru upplýstir um niðurstöður fundarins.
  • Allir foreldrar í árganginum fá upplýsingar að eineltismál hafi komið upp í árganginum og að vinna skv. eineltisáætlun skólans sé komin í gang. Meta skal í samráði við þolanda og foreldra hans hvort nemendur árgangsins fái einnig þessar upplýsingar og hvort nafn þolanda sé gefið upp.
  • Skólafélagsráðgjafi tekur einstaklingsviðtöl við gerendur og þolendur þrisvar sinnum með viku og svo tveggja vikna millibili. Þessi viðtöl eru tekin á ákveðinn hátt, markvisst með það í huga að eineltið hætti (fylgiskjöl 2 og 3, hjá skólafélagsráðgjafa). Í þriðju vikunni hittast þolendur og gerendur á fundi hjá skólafélagsráðgjafa ef það er talið henta framgangi málsins. Foreldrum er ávallt boðið að vera viðstaddir þessi viðtöl.
  • Þolanda er boðið upp á sjálfstyrkingarviðtöl hjá skólafélagsráðgjafa í samráði við foreldra.
  • Til greina kemur að skólafélagsráðgjafi ræði við alla nemendur árgangsins í litlum hópum (3-4) en þar væri skoðuð staða hvers og eins í eineltinu og hvað þeir geta lagt af mörkum til að laga ástandið.
  • Ákveðinn rammi og viðurlög eru sett upp gagnvart óviðunandi hegðun og eru allir kennarar og stuðningsfulltrúar í árgangi upplýstir um það sem í gangi er.
  • Skólinn endurmetur hvort betrumbæta þurfi almennan skólabrag og stuðla að jákvæðari menningu með sérstökum aðgerðum, sérstaklega ef eineltistilkynningar eru tíðar.
  • Umsjónarkennarar vinna með bekkjunum að bættum samskiptum. Krakkarnir læra um einelti, hvernig það birtist, hvaða aðferðum er beitt og hvaða tjóni það getur valdið. Umræður, hlutverkaleikir, myndbönd o.fl. er nýtt og krökkunum eru kenndar einfaldar leiðir til að bregðast við einelti verði þeir varir við það. Reynt er að efla færni nemenda til að velja rétta afstöðu og hjálpa þeim sem fyrir eineltinu verða. Skólafélagsráðgjafi kemur með umræðu inn í bekki ef það þykir henta. Hjúkrunarfræðingur tekur þátt í þessari vinnu og kemur inn í bekki með kennsluefni sem valið er eftir þörfum hverju sinni.
  Þessi vinna skal ekki að taka meiri tíma en einn mánuð.

  3. þrep – Eftirfylgd

  • Skólafélagsráðgjafi hittir þolendur og gerendur þrisvar sinnum á mánaðar fresti og fylgist með að árangur haldist. Foreldrar beggja eru upplýstir um árangur.
  • Skólafélagsráðgjafi kallar teymið saman á fund. Farið er yfir hvernig gengið hefur og árangur skoðaður. Metið er hvort markmið hafi náðst og ákvarðanir teknar um framhaldið.
  • Máli er lokað formlega í samráði við foreldra þolanda.
  • Skólafélagsráðgjafi sendir skilaboð til allra aðila málsins um að því sé lokið. Fulltrúi skólastjóra sendir samsvarandi skilaboð til foreldra í árganginum, þar sem þeir eru upplýstir um að vinnu skv. eineltisáætlun sé lokið og hvernig árangur náðist. Nemendur eru einnig upplýstir um árangurinn hafi þeir fengið vitneskju um málið skv. 2. þrepi 3. lið.
  • Nemendaverndarráð er upplýst um gang mála.
  • Umsjónarkennarar eru áfram vakandi yfir þolendum og gerendum og fylgjast með samskiptunum í bekknum.
  • Fljótlega eftir skólabyrjun ár hvert er rætt við þolendur fyrra árs og athuguð staða og líðan.
  • Áætlunin er sveigjanleg þannig að teymið metur hverju sinni hvort ástæða sé til að bregða út af henni á einhvern hátt.
  • Sé það upplifun foreldra að þeir hafi ekki fengið hlustun skólayfirvalda vegna þess eineltis sem barn þeirra hefur orðið fyrir eða þeir telji að málinu hafi ekki verið sinnt sem skyldi geta þeir leitað til Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
  • Takist enn ekki að stöðva eineltið eða ef foreldrar telja að ekki hafi verið gengið faglega til verks við úrlausn málsins geta þeir leitað til fagráðs um einelti sem skipað er af menntamálaráðherra.
  • Þessi eineltisáætlun var samin veturinn 2007-2008 og tekin í notkun haustið 2008. Hún hefur verið notuð í Háteigsskóla síðan með góðum árangri. Ágætlega hefur gengið að stöðva einelti og að viðhalda árangri. Kannanir sýna að foreldrar eru ánægðir með þetta vinnulag.

  Eftirfarandi heimildir voru hafðar til hliðsjónar við gerð þessarar áætlunar:

  • Olweusaráætlunin um einelti.
  • Gegn einelti - Handbók fyrir skóla. Ritstjórar: Sonia Sharp og Peter K. Smith. Æskan, Reykjavík, 2000.
  • Bullying - How to spot it, how to stop it. Guide for parents and teachers. Karen Sullivan. Rodale, London, 2006.
  • Saman í sátt. Leiðir til að fást við einelti og samskiptavanda í skólum. Erling Roland og Grete Sörensen Vaaland. Námsgagnastofnun, Reykjavík, 2001.
  • Punktar frá Kolbrúnu Baldursdóttur, sálfræðingi.


  Sigríður Sigurðardóttir, skólafélagsráðgjafi
 • Tilkynning vegna gruns um einelti

Prenta | Netfang

Háteigsskóli, v/Háteigsveg, 105 Reykjavík | Sími: 530-4300, Símbréf (fax): 530-4301
Netfang: This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Íþróttahús: 553-6887 | Hjúkrunarfræðingur: 530-4306 | Halastjarnan, s. 411-5580 og 663-6102